miðvikudagur, 25. mars 2015

Mont miðvikudagur

Ég held ég hafi nú minnst á það áður, að á miðvikudögum erum við með Magnaðan Montdag á Eitt spor enn... á facebook.  Þar sýnum við ýmist vinnslumyndir eða kláraðar myndir, og hvetjum með því hver aðra áfram.  Það er alveg magnað hvað þetta er öflugt og hvetjandi :)  Ég saumaði eitthvað í vikunni, er með 1 mynd í vinnunni (brúðkaupsmyndina) og heima (síðustu kvöldmáltíðina).
Svona er staðan á þeim báðum.

Byrjaði á þessari 17. mars

Staðan í dag 25. mars
Vinnslualbúmið er hér




þriðjudagur, 17. mars 2015

Brúðkaupsmyndin...


....er komin í gang.  Kláraði síðasta skóparið í dag fyrir frændsystkyn mín, og byrjaði á brúðkaupsmynd foreldra þeirra, hún er í póstinum á undan þessum.  Ég hlakka mikið til að klára og láta ramma inn, og gefa þeim þetta, þar sem þau vita ekkert af þessu :) :)
Þessi mun, eins og skópörin, verða hérna í vinnunni og verður því vinnsluhraðinn ekkert svakalegur :)


Byrjuð 17.mars 2015

föstudagur, 13. mars 2015

Skór skór og skór...

Ég er að dunda við að klára síðasta skóparið fyrir frændsysktkyn mín......og á eftir því ætla ég að sauma þessa fallegu mynd fyrir foreldra þeirra, sem reyndar giftu sig fyrir tugum ára ;)

Vervaco 95.514

Á eftir henni er á planinu 4 skópör til viðbótar sem ég var beðin um að sauma fyrir frænku mína, henni langar svo í fyrir börnin sín :)
Inná milli mun ég svo dunda í kvöldmáltíðinni :)
Ég fékk ný gleraugu um daginn og þvílíkur munur, þau eru tvískipt og því á ég orðið auðveldara með að sjá það sem ég að gera :) :)

miðvikudagur, 11. mars 2015

Komin heim frá London

Við komum heim frá London núna á mánudaginn eftir frábæra ferð.  Æðislegur félagsskapur í mjög breiðum aldurshópi, yngsta 22 og elsta 72 :)  Ekki allar með áhuga á handavinnu en við fórum samt allar á sýninguna í Olympia Hall.  
Miðað við fyrstu sýninguna sem ég fór á, aðra jafnvel, þá varð ég fyrir vonbrigðum með þessa.  Ef ég væri í skartgripagerð eða textílmálun eða kortagerð, þá hefði ég örugglega verið hrifnari.  En fyrir útsaumsáhugafólk, var úrvalið lítið og lélegt.  Einn bás með efni og ekki allt til, og einn lítill með pakkningum frá Michael Powell sem heilluðu mig ekki.
Mér tókst samt að eyða smá peningum, keypti um 2 metra af ivory lituðum java fyrir skómyndirnar mínar og svo gaf Halla mér 2 búta af glitrandi hvítum og 2 búta af glitrandi kremuðum java.  Keypti mér garn í eina mynd sem ég ætla að byrja á þegar ég er búin með síðasta stelpuparið sem er í vinnslu, og 3 spottaklippur.  Elska þessar klippur, mun klárlega kaupa meira af þeim á næsta ári.  Já það verður sýning á næsta ári.....maður heldur í vonina að hún lagist ;)
Á myndinni sést líka í nálapakka sem ég var búin að panta og láta senda á hótelið, 250 stk ;)
Maður á aldrei of mikið af nálum :)


Ég er ekki búin að sauma mikið.....nokkur spor í kvöldmáltíðina......


Smelltu hérna til að sjá vinnsluferlið :)



sunnudagur, 1. mars 2015

Nýr mánuður


Tíminn er fljótur að líða, mars kominn og ekki á morgun, ekki hinn, heldur hinn fer ég til London !!
Hlakka rosalega mikið til :)

Það sem ég er að vinna í þessa dagana er síðasta stelpuparið, er með það í vinnunni og sauma spor og spor.

Í dag tók ég svo upp síðustu kvöldmáltíðina og er að vinna í henni.

Eyddi smá tíma í að skanna inn hluta af mynstrinu og er með það í spjaldtölvunni......finnst frábært að geta verið með það í henni, zoom inn og út eins og mér hentar :)